Um Rútínu

Í sumarfríinu 2020 langaði mig svo til að gera eitthvað allt annað en það sem ég vinn við. Mig langaði svo að gera eitthvað skapandi. Ekki það, vinnan mín getur verið mjög skapandi en mig langaði svo að gera eitthvað allt annað.

Hugmyndin byrjaði eiginlega á því að ég rakst á myndavél sonar míns, fór að fikta í henni og langaði að gera eitthvað með hana. Mig langaði að taka myndir. Ég kann í raun ekkert að taka myndir, nema á símann, þá blöndu af myndum af því áhugaverða sem ég sé og einhverjar pródúseraðar selfie myndir til að birta á samfélagsmiðlum svo allir haldi að ég sé ferlega töff og næs. Ég fór í smá hugarflug með sjálfri mér og niðurstaðan var að mig langaði að horfa á fólk. Horfa á það í gegnum þessa myndavél sonar míns og horfa á það í gegnum rútínu þess.

Rútína getur verið svo margslungin og við erum líklega öll með okkar skilning á hugtakinu. Ég ætla ekki að segja frá minni rútínu hér að öðru leiti en því að ég er A-týpa (vakna snemma og geri helling á morgnanna) og hef mjög oft fengið athugasemd um að fólk vildi óska að það gæti það sem ég geri snemma á morgnanna. Það er pínulítið eins og við A-týpurnar séum á smá stalli. Ég hef reyndar líka margoft fengið athugasemd um að ég sé biluð að nenna að vakna snemma og jafnvel upplifað að fólk verði hálf pirrað vegna þess. Sem sé ekki á stalli heldur í hóp hinna skrýtnu.

Í Covid19 hefur verið talað mikið um rútínu. Mikilvægi þess að halda rútínu þegar unnið er og lært heima. Hvers vegna ætli það sé svona mikilvægt fyrir okkur að halda þessari rútínu? Líður okkur þá betur?

En rútína getur verið stór og smá. Dæmi um smáa rútínu gæti t.d. verið röð þeirra aðgerða sem þú gerir áður en þú ferð að sofa eða fyrst eftir að þú vaknar. Rútína getur verið dagleg, vikuleg, árstíðabundin. Svo getur rútína verið miklu stærri, er það rútína lífsins að fæðast, lifa og deyja?

Vefsíðuna Rútína hef ég skilgreint sem listaverkið mitt.

Samband
birnairis (hjá) gmail.com