
Sigurður Örn Ragnarsson, 29 ára. Bý í Kópavogi ásamt unnustu minni, Helenu Ríkey. Ég er menntaður vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands en hef stundað þjálfun og ráðgjöf í hreyfingu og heilsu síðastliðin tvö ár, nú nýlegast í fyrirtækinu Greenfit. Ég stunda mikla þjálfun sjálfur en hef keppt sem atvinnumaður í þríþraut síðastliðin 2-3 ár með góðum árangri. Ég stunda einnig fjarþjálfun á hliðinni þar sem ég hjálpa fólki að ná betri árangri í eigin æfingum og heilsu.
Rútínan
Ég hef ávallt verið mikið fyrir einhvers lags rútínu, sama í hvaða formi hún er. Mér finnst dagurinn nýtast best þegar það eru ákveðnir fastir hlutir sem breytast ekki og ég er almennt á því að það sé nokkuð innbyggt í okkur öll að fylgja ákveðnu mynstri yfir daginn, vikur, mánuði og ár. Mér líður almennt best þegar ég veit hvað er framundan og get planað hlutina
eftir því og hef aldrei verið mikið fyrir svona „spontant“ hluti þar sem þá finnst mér ég alltaf vera í eltingaleik við tímann. Tími er nefnilega verðmætasta auðlindin okkar og án rútínu og skipulagningar þá nýtum við einmitt tímann ekki eins vel og við gætum verið að gera.
Ég byrja yfirleitt daginn á því að vakna kl. 05:00, sem er sá tími sem ég vakna alla daga vikunnar. Mér finnst mikilvægt að líkaminn nái þessari rútínu vel þar sem þá getum við notað þennan tíma sem eins konar „akkeri“ yfir daginn sem öll líkamsstarfsemi er regluð í kringum.
Þetta er ekki bara einhver sérviska í mér, heldur sýna vísindin að þetta er einmitt besta leiðin til að koma reglu á svefninn og almenna líkamsstarfsemi yfir daginn. Þá meina ég ekki endilega að við eigum að vakna kl. 5:00 alla daga, heldur þurfum við hvert og eitt að finna okkur einhvern fastan tíma til að miða við á hverum degi. Næst fæ ég mér tvo kaffibolla, einn lítinn espresso og einn sem ég geri með pressukönnu. Þetta er ákveðin athöfn og það er eitthvað við þægilega, hljóðláta morgna sem heillar mjög mikið.
Nú í ár stunda ég vinnu hjá fyrirtæki sem heitir Greenfit þrjá daga vikunnar, þannig mánudaga, miðvikudaga og föstudaga er ég farinn út úr húsi kl. 7:15 til að hjóla úr Kópavogi og niður á Snorrabraut. Þetta er fínn tími til að stunda smá hugleiðslu þar sem ég finn að á hjólinu getur maður aðeins slakað á og notið náttúru og útiveru. Ekkert stress í umferðinni.
Ég vinn flesta þessa daga frá 8-17 þannig oft á tíðum er ég að koma heim beint í kvöldmat og geri þannig ekki mikið annað þessa daga, ekki nema ég sé með æfingu um kvöldið. Ég þjálfa nefnilega þríþrautadeild Breiðabliks á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum sem og stunda eigin æfingar og einkaþjálfun sjálfur. Þannig eru vikurnar oft alveg full pakkaðar annað hvort af vinnu, eigin æfingum og svo þjálfun.
Það má því segja að líf mitt snúist svolítið um rútínu, og sem verkfræðingur þá hef ég alltaf haft frekar mikinn áhuga á að besta allt sem ég tek mér fyrir hendur og er tímastjórnun þar engin undantekning. Mér finnst best þegar ég næ að halda í sama rhythma alla daga en það er þó ekki alltaf hægt og þá skiptir máli líka að vera með góða aðlögunarhæfni þrátt fyrir að löngunin sé alltaf að halda í eitthvað fast mynstur. Eitt af því sem við höfum öll þurft að kynnast nýlega er hvernig rútína okkar allra tók breytingum núna í ár vegna Covid-19 en þessi blessaða veira hefur sett margt úr skorðum í lífi okkar allra. En það var samt ótrúlegt að sjá hversu fljót við vorum að finna ný mynstur og aðlaga okkur að þeim. Vonandi náum við að vinna fljótt bug á þessu til að við getum komist aftur í eðlilegt horf og stundað okkar eigin
rútínur óhindrað.
Eitt af því sem ég held að geti truflast núna í ljósi þessa er jólahald, en það mætti segja að þessi tími í kringum jól og áramót sé einna fastmótaðasti rútínu tími sem við höfum. Flestir hafa eitthvað sem þeir gera á hverju ári, hefðir sem erfitt er að breyta og við finnum hvernig litlar breytingar geta jafnvel haft þau áhrif að við upplifum þessa tíma ekki með sama hætti.
Við fjölskyldan fórum til dæmis einu sinni erlendis yfir áramótin og það bara var einhvern veginn ekki það sama og að eyða þeim hér á Íslandi með öllum tilheyrandi hefðunum. Við fjölskyldan höfum þá iðulega boðið ömmu og afa báðum megin í mat á gamlársdag og fagnað áramótunum saman. Að fara erlendis var þó mjög skemmtilegt og við upplifðum mjög góð áramót, en það var samt eitthvað sem vantaði og ég held að það séu eflaust fleiri sem hafa upplifað eitthvað svipað.
Þegar öllu er á botninn hvolft, þá held ég að við öll séum nokkuð bundin við að hafa einhverja rútínu í okkar lífi. Þannig finnst okkur við hafa stjórn og getum skipulagt og gert ráð fyrir vissu mynstri í okkar lífi. Með enga reglu né vissu um hvað sé framundan fáum við ekki eins mikið öryggi fyrir framtíðinni sem getur sett hlutina aðeins úr skorðum. Auðvitað er alltaf fínt að láta koma okkur á óvart endrum og sinnum en þegar þau skipti vera orðin fleiri en þau sem við vitum og gerum ráð fyrir með vissu, geta hlutirnir farið að verða óþægilegir. Þannig tel ég að einhvers lags rútína sé góð fyrir okkur öll og hjálpar til við að halda samfélaginu gangandi á vissan hátt.