
1. Hvaða þýðingu leggur þú í hugtakið rútína? Hvað þýðir rútína fyrir þig?
Fyrir mér er rútína nauðsynleg, en samt aðeins upp að vissu marki. Ég elska ekkert minna en að taka óvæntar ákvarðanir sem ruglar í rútínunni öðru hvoru en síðan er alltaf gott að detta aftur í rútínuna. Rútínan hjálpar mér líka að skipuleggja hvað ég vil leggja áherslu á í mínu lífi.
2. Ertu með einhverja grunn-rútínu? Er hún mismunandi?
Mín mantra í lífinu er einföld, Lykillinn að hamingju er dásamlegur hversdagurinn. Ég er með nokkrar grunn rútínur sem skipta mig miklu máli, bæði fyrir sálina og líkamann.
Ein grunn- rútína sem mér þykir ótrúlega vænt um og á sér stað (nánast) á hverjum einasta morgni er besti kaffibolli dagsins sem maðurinn minn, Friðrik hellir upp á í fallegu kaffivélinni okkar. Við njótum svo bollans og spjöllum við krakkana yfir morgunverðinum.
Alla miðvikudags- og föstudagsmorgna mæti ég á æfingu hjá November Project Reykjavík en þar hitti ég hressustu morgunhana landsins og við tökum vel á því saman í ferska morgunloftinu hvernig sem það viðrar. Þess á milli bæti ég við lengri hlaupaæfingum, hjóla eða stunda jóga.
Útihlaup, er mín leið til að halda líkamanum í góðu standi en ekki síður sálinni. Að fara út að hlaupa er mín hugleiðsla
3. Hver er þín rútína?
Dagleg – Kaffi, bros, faðma krakkana og manninn minn og tónlist.
Vikuleg – Ég verð alltaf að heyra í mömmu, pabba, tengdó og vinkonum mínum nokkrum sinnum í viku. Hlusta á podköst.
Árstíðarbundin rútína – Ég elska árstíðabreytingar, litirnir og brakandi ferskt loftið á haustin. Kertaljós og skíði á veturnar. Rauð morgunsólin á vorin og hið allra besta íslenska sumar á sumrin!
Árleg rútína – Ferðast um Ísland og vera í sveitinni geri ég eins oft og
mögulega hægt er.
Nauðsynleg rútína -Útivera í náttúrunni er mér nauðsynleg!
4. Hvað með rútínu í kringum svef, mat, hreyfingu, tómstundir? Hvenær ferðu að sofa, hvenær vaknar þú? Hvað borðar þú, hvenær og með hverjum? Hvaða hreyfingu stundar þú, hvenær og hvernig? Tómstundir, hvenær, hvaða, hvernig?
Ég fer yfirleitt allt of seint að sofa miðað við hvað mér finnst gott að vakna mjög snemma. Kvöldrútínan mín er mjög einföld, bursta tennur og þvo mér í framan.
Ég er svo heppin að eiga einstaklega flínkann eiginmann sem býr til geggjaðan mat. Hreinn og hollur matur er það eina sem ég borða en ég elska súkkulaði og ítalskar kökur! Kvöldmaturinn með fjölskyldunni er heilög stund og það er undantekning að við borðum ekki saman og spjöllum um daginn okkar.
Hreyfing er hluti af því hver ég er, eitt af mínum grunnstoðum í lífinu. Ég er svo innilega þakklát fyrir að hafa heilsu og getu til að reima á mig skóna og fara út að hlaupa eða ganga.
7. Hvað með rútínu í stóra samhenginu – fæðast, lifa, deyja?
Við erum hluti af einhverju svo miklu stærra en við sjáum og skiljum.