Martha Árnadóttir

Martha sendi sína rútínu til mín í tölvupósti

Eftir að hafa legið með tærnar upp í loft og hugleitt rútínu fram og til baka þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að rútína er ALLT eða EKKERT!

Ef ég virði ekki rútínuna, sama hver hún er, gerist ekki neitt, þá fara plönin út um gluggann og ég verð bara eirðarlaus, byrja að ráfa um húsið og hugsa “hvað ætti ég að gera núna”?

Skiptir þá ekki máli hvort rútínan er bara dagsplanið, sem ég er að uppgötva að er kannski mikilvægasta rútínan – að setjast niður og gefa næsta degi merkingu áður en ég fer að sofa. Búa til rútínu dagsins, sem auðvitað er 80% sú sama og líðandi dags – en samt nýr dagur með nýju tvisti.

Plön, rútína, plön, rútína – kannski klifun en fyrir mér eru þessi fyrirbæri samofin – hvort kemur á undan skiptir ekki máli.

Sennilega er rútína dagsins, vikunnar, mánaðarins og ársins hjá mér byggð upp af dagsplönum og ef ég virði plönin þá verður til rútínan dagsplanið og þá ganga allir hlutir upp.

O, bara að þetta væri svona einfalt þá væri allt fullkomið sem það er auðvitað ekki – þessa vegna er áhugavert fyrir mig að velta upp spurningunni – af hverju reyni ég að komast undan dagsplaninu, rútínunni minni – sem ég geri iðulega? Af hverju get ég ekki bara kíkt í símann með morgunbollanum, rúllað í gegnum dagsplanið (sem ég gerði kvöldið áður) og bara byrjað? Það er milljón dollara spurningin hér. Kannski uppreisn gegn rútínu eða bara eirðarleysi, leti!!

En – auðvitað er ég með einhverjar grunnrútínur eins og að vakna um kl. 7 eða 8 eftir því hvernig stendur á í vinnunni minni, löðra andlitið í ísköldu vatni, morgunbollinn x2 og volaaa vöknuð!

Sest við skrifborðið, vinn heima, oft með morgunbolla nr. 2 og byrja að tékka á tölvupóstinum eða koma í gang Dokkufundi ef slíkur er á dagskrá og sit við vinnu fram undir hádegi, stend reyndar soldið oft upp – get ekki setið lengi kyrr.

Um hádegið þá fer að færast yfir mig eirðarleysi, hvað á ég að gera núna? Það getur verið lúxusvandamál að vinna hjá sjálfum sér – hef ekki lofað neinum að vera í vinnunni frá 9 – 17.

Þarna kemur hjólið mitt sterkt inn – Zwift og Víkingur í World Class – fer ekki út fyrir dyr á hjólinu yfir veturinn. Annars stunda ég reglulegar hjólaæfingar 4 – 5 sinnum í viku og eru 3 þeirra í rútínu og aldrei neitt vandamál (wonder why) – en æfing 4 og 5 geta stundum ögrað mér, núna, ekki núna, seinna, hefði átt að… en dagsplanið, þú veist, þetta sem gert er kvöldið áður, það er alveg að komast í rútínu og miklar vonir bundnar við það. Styrktaræfingar, teygjur og hugleiðsla eru líka undir þessum hatti.

Rútína getur náð heljartökum á mér – en svo eftir einhvern tíma er ég alveg til í að henda henni og get tekið U beygjur án mikillar umhugsunar eða fyrirhafnar – og ekki alltaf góðar skal ég segja ykkur en heldur ekki slæmar.

Rútína eða venja, meðvituð eða ómeðvituð ræður ferðinni og sennilega því eins gott að semja hana sjálfur.

Good or bad, routine rules!

Comments are closed.