
Um Jónas:
Ég er 27 ára karlmaður, fæddur 1992. Ég útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2013, eftir að hafa klárað Menntaskólann Hraðbraut 3 árum áður. Ég tók fjórðung af mastersnáminu í kjölfarið, en ákvað að hætta því þar sem ég sá ekki fram á raunverulegt notagildi fyrir umfram-gráðuna á mínu sviði. Ég hafði bara gaman af því að læra áfangana sem að ég tók.
Ég er meðeigandi að fyrirtækinu Myndmálið Mitt en þar rek ég kennsluvefinn Myndmál, sem kennir íslensku, þó fyrst og fremst fyrir leikskólabörn. Þar að auki hef ég starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Landsbankanum síðan árið 2013.
Í dag spái ég mikið í persónulegum fjármálum og hef ég áhuga á fjárfestingum og hvernig það getur gert mér kleyft að vera ekki lengur háður starfinu mínu. Ég mun halda áfram að vinna eins lengi og starfið sem ég vinn vekur áhuga minn, en það er gott að vita að ég muni ekki þurfa að vinna í framtíðinni, þurfandi þess fjárhagslega.
Fjölskyldan mín samanstendur af konunni minni (við erum ekki gift en ég kalla hana samt konuna mína 🙂 ). Þar að auki á ég þrjú yngri systkini og móðir og föður, sem halda sig öll í Hafnarfirðinum. Sjálfur flakka ég um höfuðborgina eftir hentugleika en ég hef búið í norðurbæ Hafnarfjarðar sem og Áslandinu, Vatnsmýrinni hjá Háskóla Íslands, Þverbrekkunni í kópavogi og í dag í Miðtúni í Reykjavík. Það kemur í ljós hvert ég flakka næst.
1. Hvaða þýðingu leggur þú í hugtakið rútína? Hvað þýðir rútína fyrir þig?
Fyrir mér þá þýðir hugtakið rútína einfaldlega hvað við erum; hvernig vorum við mótuð og hvert erum við að fara í lífinu. Við erum að stærstum hluta afleiðing þess sem að við gerum. Við erum á þeim stað sem við erum á í lífinu útaf þeirri rútínu sem að við höfum fylgt í gegnum árin og leiðir okkar hafa mótast eftir því hvernig rútínan okkar hefur breyst samhliða því, að undanskyldum einstaka þáttum sem við ráðum ekki við. Ef við viljum sjá marktækar breytingar í lífi okkar þá krefst það yfirleitt einhverskonar breytingar á rútínu okkar.
Þeir sem hafa lært um árangursfræði, hvort sem um er að ræða tengda heilsu, fjármálum, viðskiptum eða okkar persónulegu samböndum, skilja að árangur er ekki áfangastaður sem kemur allt í einu upp úr þurru. Árangur er reglubundið ferli sem þarf að móta og fylgja. Við getum mótað þetta ferli sjálf og það er mikilvægt að leggja hugsun í ferlið. Ef við gerum það þá eru meiri líkur á því að við náum árangri af því að heilinn okkar lærir að mynda rútínu út frá því ferli sem að við tileinkum okkur. Fyrir mér þá er árangur og ánægja með það hvar við erum hverju sinni afleiðing rútínunnar okkar og við þurfum að vera meðvituð um það, allavega að mestu leyti.
Ef það er engin hugsun lögð í ferlið sem við tileinkum okkur þá mun nákvæmlega það verða að okkar rútínu og þá er ómögulegt að segja hvert maður stefnir, en það eru góðar líkur á því að sú rútína sem hefur enga hugsun á bakvið sig sé ólíkleg til árangurs. Við sem mannfólk erum í eðli okkar löt og hrædd; við viljum fá einfalda orku, við viljum fara öruggu leiðina í lífinu, við viljum helst ekki gera neitt sem er óþægilegt. Við elskum þægindarammann.
Mér finnst mikilvægt að fólk staldri við og hugsi sig um hver sín rútína sé orðin, hvert er hún raunverulega að fara með mann og hugsa hvort að þar sem maður sé staddur í dag eða þangað sem að maður stefnir eftir ákveðinn fjölda af mánuðum eða árum sé ásættanleg niðurstaða fyrir mann. Það getur verið að maður þurfi að endurskoða rútínuna sína.
“Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara, þá mun hvaða vegur sem er koma þér þangað.” – Lewis Carroll, rithöfundur, m.a. þekktur fyrir Lísu í Undralandi.
2. Ertu með einhverja grunn-rútínu? Er hún mismunandi?
Ég er með rútínu sem er orðin ágæt, þó það sé sumt sem mætti bæta. Hún hefur breyst mikið í gegnum árin. Það er áhugavert að það fyrsta sem ég geri á daginn er rosalega óreglulegt, sem er ekki beint hluti af heilbrigðri rútínu. En eitt er víst, ég er búinn að fá mér kaffibolla innan við hálftíma eftir að ég vakna, oftar en ekki fyrr. Dagurinn getur ekki byrjað fyrr.
Það er kannski ekki besti ávani í heimi að vera svo háður einhverju eins og kaffi, en samkvæmt mínum heimildum þá hafa 5 kaffibollar á dag heilsu-eflandi áhrif (kaffið, ekki koffínið) svo ég sé ekki ástæðu til þess að breyta þeirri venju.
Starfandi í “flex” vinnuumhverfi og verandi uppalinn af sjálfum mér á tölvuleikjum og óreglulegum svefntíma tengdu því þá er ég ennþá með óreglulegan tíma þegar það kemur að því að vakna, ég er ekki vanur að setja mér fastan tíma til að fara að sofa en ég er að skána í því. Stundum mæti ég 08:00 í vinnuna, en yfirleitt er það í seinni kantinum, á milli 09 og 10. Þetta er líklega sú óregla sem ég þarf hvað mest að vinna í, en ég spái ekki of mikið í því núna þar sem ég er að einblína á fjölda klukkutíma sem ég næ að sofa frekar en að vakna á sama tímanum eins og staðan er í dag.
Það er ekki fyrr en nýverið sem ég hef byrjað að spá í neikvæðum afleiðingum “snooze” takkans. Ég má eiga það að ég legg í vana minn í dag að sofa í að minsta kosti 8 klukkutíma, sem er talsvert betra en 6 klukkutímarnir sem að ég vann með í mörg ár áður en ég hætti að spila tölvuleiki og vaka frameftir yfir sjónvarpinu.
Ég hef heyrt að það sé til smáforrit (app) sem að neyðir mann til þess að leysa nokkur stærðfræðidæmi eða verkefni áður en maður getur slökkt á vekjaraklukkunni, ég næ í það snöggvast. Það er einstaklega óheilbrigt að nota “snooze” takkann, en hingað til hefur hann verið besti vinur minn. Ég þarf að færa honum slæmu fréttirnar.
Fyrir 3-4 árum byrjaði ég að mynda einn af mikilvægari þáttum minnar rútinu og það er endurmenntun og nýmenntun í formi hljóðbóka og hljóðvarpa. Ég hef það sem reglu að á meðan að ég ferðast til og frá vinnu og á meðan að ég stunda líkamsrækt, er að keyra, ferðast eða ganga, þá er ég að nýta dauða tímann í að læra. Ef þú sérð mig úti þá eru góðar líkur ná því að ég sé með þráðlaus heyrnartól í eyrunum. Ég átti 0 hljóðbækur á Audible árið 2016. Núna er ég kominn með 96 titla í safnið, þar af er ég búinn að hlusta á 72 af þeim. Ég las mikið þegar að ég var yngri, en ég finn mig ekki hafa tíma til þess í dag. Ég er búinn að komast að því að það er engin afsökun, nánast allar bækur sem eru gefnar út í dag eru líka gefnar út á hljóðbókarformi. Það er líka orðið til óendanlega mikið af kennsluefni í hljóðvörpum, ég er búinn með mörg hundruði klukkutíma af efni, allt ókeypis eða ódýrt. Ég lærði það að menntun líkur ekki þegar að skólinn klárast hjá manni. Þegar að skólinn er búinn þá ertu kominn með tólin sem þú þarft til þess að byrja að læra.
Ég nota ekki þennan tíma fyrir skáldsögur og ég er ekki endilega að læra um efni sem að tengist vinnunni minni, þó að það komi allveg fyrir. Megnið af tíma mínum fer í að læra um nýja hluti sem að ég get notað til þess að auka lífsgæði mín og þeirra sem að eru í kringum mig. Ég er að læra um nýsköpun, fjárfestingar, persónuleg fjármál, mannleg samskipti, fyrirtækjarekstur, kynlíf, dæmisögur og ýmislegt fleira sem nýtist mér ýmist í mínu eigin starfi eða í einkalífinu.
Ég trúi því að við vitum ekki það sem að við vitum ekki fyrr en við höfum lært það. Það er undir okkur komið að komast að því hvað við vitum ekki. Ég veit um marga sem að búa til rútínu og horfa á fræðslumyndbönd sem hafa svipaðan tilgang. Gott dæmi um svoleiðis veitur eru PluralSight, sem ég hef notað aðeins í gegnum mína vinnu til þess að verða betri forritari, MasterClass, Udemy og svo Lynda, en þessar síðar nefndu kenna allt milli himins og jarðar. Ég hef ekki notað þær veitur mikið, en ef ég hefði meiri dauðan tíma þar sem ég væri ekki á ferðinni þá myndi ég leggja í vana minn að skoða meira af þeim.
Mikilvægasti þáttur minnar rútinu í dag er án efa líkamsrækt og heilsa. Ég hef lengi haft það fyrir reglu að hreyfa mig að lágmarki 3-4 sinnum í viku og ég er núna kominn á þann stað að hreyfa mig 5-6 sinnum í viku, í lágmarki 45 mínútur í senn. Þetta byrjaði ekki svona, fyrst var það 0 sinnum og svo 2 sinnum í viku. Þessi þáttur, ásamt matar-rútinunni minni, er búinn að gera mér kleyft að fara úr því að vera í 100kg offitu niður í það að hafa náð að komast undir 70kg, en jafnframt heilbrigða fituprósentu sem er það eina sem að skiptir máli. Þyngd er bara viðmið, sem er mikilvægt að horfa á til hliðsjónar út frá því hvers kyns æfinga maður er að einblína á. Ég er ekki kominn á þann stað sem ég vil vera á en núna veit ég að ég er heilbrigður svo ég er ekki að stressa mig á því að vera ekki nákvæmlega þar sem ég vil vera en ég veit að ég mun komast þangað með því að viðhalda rútínunni minni.
Ég er svo gott sem í formi lífs míns í dag og er búinn að fara úr því að hlaupa 10km á 68 mínútum niður í 47 mínútum og 21:48 mínútur í 5km. Þetta er allt búið að koma eftir mörg ár af strangri þjálfun og ég hef fallið oft og mörgum sinnum í þessari vegferð og þetta hefur verið rússíbani. En hreyfing er orðin hluti af minni rútínu og þökk sé henni og heilbrigðara sjónarhorn gagnvart mat þá er ég heilbrigður og hefur aldrei liðið betur.
3. Hvað með rútínu í kringum svef, mat, hreyfingu, tómstundir? Hvenær ferðu að sofa, hvenær vaknar þú? Hvað borðar þú, hvenær og með hverjum? Hvaða hreyfingu stundar þú, hvenær og hvernig? Tómstundir, hvenær, hvaða, hvernig?
Ég var lengi vel með einstaklega lélega rútinu í kringum svefn, sérstaklega á þeim tíma sem að ég spilaði tölvuleiki sem ég gerði lengi vel. Þetta endaði oft með tæplega 6 klukkutíma svefn. Í dag næ ég a.m.k. 8 tíma svefn. Ég fer upp í rúm á milli 11 og 12 virka daga og vakna milli 8 og 9. Um helgar fer ég yfirleitt að sofa milli 12 og 2 og vakna þá einhvern tíma á milli 9 og 11, en ég sef oft aðeins lengur um helgar.
Í dag borða ég venjulega mjög litla og kolvetnaríka fæðu í morgunmat á virkum dögum. Þetta getur verið hafragrautur, morgunkorn (Special-K, Cheerios, etc), banani, finn-crisp með osti, eða Corny/Kelogg’s bar ef ég er á hraðferð. Ég vil ekki borða of stóran morgunmat, en ég vil hafa smá umframorku þar sem að ég æfi í hádeginu alla virka daga.
Ég borða hvað sem er á boðstunum í hádeginu í vinnunni en ég passa mig alltaf að hlaða diskinn af grænmeti fyrst og held kolvetnum í lágmarki, en ég neita mér ekki um þau alfarið. Ég reyni að sleppa því að borða millimál í kaffi og eftir kvöldmat en ef æfingarálag er mikið þá hlusta ég á líkaman. Stundum læðist einhver óhollusta inn, en ég reyni að halda mig við ekkert eða eitthvað hollt í millimál. Ég fæ mér hvað sem ég vil í kvöldmat. Það er yfirleitt eitthvað hollt, en ég fæ mér alveg pizzu og hamborgara stundum.
Ég hef tekið tæpt ár á lágkolvetnafæði og ég hef tekið langt tímabili þar sem að ég borðaði bara hádegismat og kvöldmat, en ef eitthvað er þá finnst mér ég hafa náð bestum árangri á því fyrirkomulagi sem ég er á í dag. Ég fór niður í 68kg á því mataræði fyrr á árinu, ég var bara aðeins harðarði með millimálin. Samt missti ég allt niður um mig nokkrum sinnum á leiðinni, ég tek stundum fáránleg helgarsukk. En, það skiptir ekki máli. Þetta er maraþon. Maður má falla, svo lengi sem maður hífi upp um sig aftur daginn eftir. Ég einblíni aftur á að þyngd skiptir ekki máli, hún er bara viðmið sem er auðvelt að nota þegar að maður veit á hvaða bili maður ætti að vera út frá þyngd, aldri, kyni, æfingarálagi og matarræði.
Þar sem að ég vakna seinna um helgar þá læt ég yfirleitt morgun-hádegis mat duga, eitthvað smá nasl yfir daginn en annars fylgi ég sömu reglum og venjulega. Ég sukka yfirleitt eitthvað um helgar og fæ mér ís, eða súkkulaði, eða eitthvað annað.
Hvað hreyfingu varðar þá stunda ég 2 Bootcamp æfingur í viku, 1 erfiða hlaupaæfingu, 1 létta en lengri hlaupaæfingu og 2 tabata/wod/ketilbjölluæfingar. Ég tek 5 æfingar yfir virku daga og svo finn ég einhvern tíma um helgar fyrir langa hlaupið. Það kemur fyrir að það detti út, en ég reyni að halda því inni. Þegar að covid ástandið er hvað leiðinlegast þá neyðist ég til að skipta sumum æfingum út fyrir auka hlaupaæfingar.
Það er bara mikilvægast að hafa fastan tíma á föstum dögum til þess að ætla út. Vani og regla er besta leiðin til þess að móta rútinu.
Ég á það til að finna mér tómstund á 1-2 ára fresti og gjörsamlega sökkva mér ofan í hana. Ég reyni að komast í hóp þeirra fremstu á þeim tíma, allavega eins og hægt er á þeim tímaramma. Þegar að ég er orðinn mjög góður í tómstundinni þá á ég það til að missa aðeins áhugann og ég held kannski áfram að iðka tómstundina en athyglin mín á það til að fara yfir í nýja tómstund í kjölfarið. Allt mótar þetta samt líf mitt og ég missi aldrei það sem að ég læri úr einni tómstundinni og oft hjálpar það mér í að vera betri í þeirri næstu, hvort sem það er sem keppandi eða bara almennur iðkandi í áhugamálinu. Það þarf ekki endilega að snúast um keppni.
4. Finnst þér gott að komast í rútínu eftir frí?
Nei ekkert frekar. Mér finnst að maður eigi að móta sér rútínu í fríinu sem gerir manni kleyft að fá ekki fráhvörf frá þeirri sem maður iðkar þegar að maður er að vinna. Rútína þarf ekki að vera leiðinleg og hún þarf ekki að draga úr manni orku.
5. Hvað með rútínu í smáatriðum, s.s. það sem þú gerir áður en þú ferð að sofa eð um leið og þú vaknar? HVernig þú skerð niður hráefni í matargerð?
Ég fæ mér léttan morgunmat þegar að ég vakna ef ég tek æfingu í hádeginu (í dag er það alla virka daga að minnsta kosti). Ég fæ mér alltaf kaffi áður en ég byrja að vinna eða kem mér útúr húsi, ef ég er ekki að verða of seinn einhvert. Ég hlusta nánast alltaf á hljóðbækur eða hljóðvarp í vinnu, úr vinnu, þegar ég hreyfi mig í einhverju sem krefst ekki hópþjálfunar og þegar að ég er í umferð. Ég nota tannþráð fyrir svefninn og tannbursta mig alltaf. Ég bý um rúmið mitt alla morgna. Ég set í þvottavél þegar að mig fer að vanta föt eða þegar að karfan er við það að fyllast.
6. Hvað með rútínu í stóra samhenginu – fæðast, lifa, deyja?
Ég spái ekki mikið í þessu út frá rútínu samhenginu nema að ég reyni að láta rútínuna mína auka lífsgæði mín og lengja þann tíma sem ég næ að nýta við góða heilsu eins og ég hef stjórn á. Ég hef tekið eftir því að ég hef orðið hræddari við dauðann eftir því sem að líf mitt varð betra, rútínan mín og samblanda af heppni hefur skilað sér í því að ég lifi loksins lífi sem er þess virði að lifa. Það getur verið erfitt að sætta sig við að það muni enda, en á sama tíma reyni ég að þakka fyrir það að hafa það á annað borð til að byrja með. Það er ekkert sjálfsagt.
P.s. ég læt hérna fylgja með mynd sem sýnir þróunina á þyngdinni minni í gegnum árin, mér finnst þetta vera góð sönnum fyrir því hvað góð rútína getur gert fyrir mann. Í dag þarf ég meira að spá í fituprósentu en þyngd, en það er gaman að eiga þetta til að sjá hvað maður getur gert ef maður viðheldur plani og lætur það ekki hafa áhrif á sig til lengri tíma þegar að maður dettur af hestinum. Það er bara að vippa sér aftur upp á bak.
