
Ívar er fjölskyldufaðir og Kópavogsbúi. Hann á eina konu, þrjú börn og starfar sem sérfræðingur hjá samskiptasviði Landsvirkjunar. Hann er einnig tónlistarmaður og hefur gefið út fjöldann allan af lögum ásamt því að hafa skrifað og sett upp söngleik.
1. Hvaða þýðingu leggur þú í hugtakið rútína? Hvað þýðir rútína fyrir þig?
Fyrir mér er rútína venja, þ.e. hegðun sem maður venur sig á og heldur deginum í skorðum. Ég held að ákveðin rútína sé í og með leið okkar til þess að fást við verkefni lífsins af meira öryggi og festu, þannig að við þurfum ekki alltaf að vera að hugsa um hlutina, heldur getum þá framkvæmt þá án þess að vera að velta þeim mikið fyrir okkur, nánast hugsunarlaust.
2. Ertu með einhverja grunn-rútínu? Er hún mismunandi?
Já, ég er með ákveðna (þokkalega lausmótaða, þó) rútínu sem ég fylgi á hverjum degi. Hún er öðruvísi á virkum dögum en um helgar.
3. Hver er þín rútína?
Dagleg: Á virkum dögum vakna ég um kl. 6, fer í sturtu, fæ mér vítamín og
fæðubótarefni og gef krökkunum mínum morgunmat. Síðan fer ég í vinnuna. Borða þar kl. 12 og kem heim um kl. 17. Annað hvort okkar hjóna eldar fyrir fjölskylduna og eftir að hafa gengið frá sest ég vanalega upp í stofu og slaka á. Við komum krökkunum í rúmið upp úr kl. 21 og reynum svo að ná eins og einum þætti á Hulu eða Netflix ef þreytustig leyfir.
Vikuleg: Á laugardögum förum við hjónin í matarinnkaup fyrir vikuna og um kvöldið erum við með kósíkvöld fyrir fjölskylduna, þar sem krakkarnir fá að velja mynd til að horfa á og fá sælgæti eða snakk að eigin vali.
Árstíðabundin rútína: Sumarfríið hefur venjulega einskorðast við fríið á leikskólanum og þar af leiðandi verið í júlí, en núna eru reyndar allir krakkarnir þrír komnir í grunnskóla, þannig að aðrir sumarmánuðir komast inn í myndina. Þá reynum við að gera eitthvað skemmtilegt, ferðast innan- eða utan landsteinanna. Jólarútínan er svo náttúrulega í ákveðnum skorðum.
Árleg rútína: Engin sérstök
4. Hvað með rútínu í kringum svef, mat, hreyfingu, tómstundir? Hvenær ferðu að sofa, hvenær vaknar þú? Hvað borðar þú, hvenær og með hverjum? Hvaða hreyfingu stundar þú, hvenær og hvernig? Tómstundir, hvenær, hvaða, hvernig?
Svefn: Ég fer yfirleitt að sofa á bilinu 22.30-23.30. Ég er með þá leiðindarútínu að vakna einu sinni á hverri nóttu og sofna ekki aftur fyrr en eftir einn eða tvo klukkutíma. Það getur því verið bagalegt ef það gerist of seint, t.a.m. um fjögurleytið, sem þýðir að ef ég á annað borð næ að sofna aftur vakna ég upp með andfælum við ljúfa hljóma vekjaraklukkunnar nokkrum mínútum seinna.
Matur: Ég er með mjög ákveðna rútínu í kringum mat. Fylgist með hitaeiningunum sem ég innbyrði með Myfitnesspal og er með ákveðnar matartegundir sem ég veit nákvæmlega hitaeiningainnihaldið á.
Hreyfing: Ég fór í fótbolta í hádeginu þrisvar í viku þar til fyrir einu og hálfu ári síðan, þegar hnéð á mér gaf sig endanlega. Þá var rútínan þannig að ég borðaði ekki fyrr en eftir tímann, stundum ekki fyrr en um þrjú- til fjögurleytið á daginn. Núna reyni ég að fara í göngutúra þegar ég get, en get ekki sagt að þeir fylgi neinni rútínu.
Tómstundir: Ég reyni að taka upp tónlist þegar ég mögulega get og er með aðstöðu til þess í bílskúrnum. Ég er með gítar í stofunni og glamra lagahugmyndir á hann í tíma og ótíma, þegar færi gefst til.
5. Finnst þér gott að komast í rútínu eftir frí?
Ekki nema að því leyti að mér finnst gott að taka mataræðið föstum tökum eftir lausatök sumarfrísins. Svo er líka hollt fyrir börnin að fá meiri strúktúr á tilveruna og binda endi á óreiðuna.
6. Hvað með rútínu í smáatriðum, s.s. það sem þú gerir áður en þú ferð að sofa eð um leið og þú vaknar? HVernig þú skerð niður hráefni í matargerð?
Ég hlusta á hlaðvörp á kvöldin, þegar ég er kominn upp í rúm. Mjög skilvirkt svefnmeðal. Man ekki í svipinn eftir fleiru.
7. Hvað með rútínu í stóra samhenginu – fæðast, lifa, deyja?
Það má kannski segja að lífið sjálft sé einhvers konar tilraun alheimsins til að ná tökum á óreiðulögmálinu, entrópíunni. Við erum þá bara augnabliks skipulag eða rútína á efni okkar sjálfra og því sem við höfum stjórn á í umhverfi okkar. Ég held hins vegar að lífið sjálft geti aldrei verið rútína hjá þeim sem fæðast í þennan heim, því orðið felur í sér endurtekningu og venju. Þessi stórkostlega tilvera getur aldrei orðið annað en óendanlega ólíklegt einskiptiskraftaverk fyrir þær frumeindir sem verða þeirrar ánægju aðnjótandi að raðast í þann massa sem við köllum homo sapiens. Við munum aldrei fæðast, eldast og deyja aftur (að því er við best vitum). Eins gott að njóta.